Upplýsingar um þunglyndi

Hver eru einkenni þunglyndis?

Einkenni þunglyndis ná til alls líkamans, bæði andlega og líkamlega. Auk þunglyndis geta einstaklingar orðið örir eða með oflæti. Það gerist þó ekki oft. Ef einstaklingur líður af meir en þrem eftirtalinna geðrænu einkenna þunglyndis og meir en einu líkamlegu, er mjög líklegt að hann hafi þunglyndi. Ef hann er með minnst þrjú einkenni oflætis er mjög líklegt að hann hafi oflæti.

Helstu geðrænu einkenni þunglyndis eru:

  •  
    • Depurð allt verður dapurt og þungt.
    • Vonleysi um bata og því tilgangslaust að leita hjálpar.
    • Hjálparleysi tilfinning fyrir vangetu eða að vera ósjálfbjarga og fá ekki stuðning.
    • Kvíði fyrir einhverju, oft óraunhæfu, eða kvíði án skýringar.
    • Óróleiki eða eirðarleysi án sýnilegs tilefnis annars en innri vanlíðan.
    • Ánægja og áhugi dvín eða hverfur alveg.
    • Svefn breytist stundum þannig að erfitt verður að sofna, stundum vaknað oft á nóttu, stundum vaknað 2-3 klukkutímum fyrr að morgni en venjulega, stundum of mikill svefn.
    • Kynlíf minnkar, stundum ekkert.
    • Áhugamál dvína og félagsleg einangrun vex.
    • Matarlyst oftast minnkandi, stundum aukin.
    • Þreyta eða slen verða áberandi og oft tekin sem teikn um alvarlegan líkamssjúkdóm.
    • Tregða sem kemur m.a. fram í hægum viðbrögðum, hreyfingum, tali og hugsun.
    • Vanmáttarkennd eða sektarkennd aðallega í formi þess að vera einskis nýtur, óþarfur, erfiður fjölskyldu sinni, jafnvel skaðlegur og syndugur.
    • Hugsun verður hægari, hugarflug fátæklegt, oft bundið við sérstakar hugsanir. Ákvarðanataka verður meir efablandin og óörugg.
    • Tómleiki með tilfinningu fyrir því að vera dofinn eða dauður í hugsun, tómur.
    • Sjálfsvígshugsanir byrja oftast með þeirri tilfinningu að verðskulda að deyja eða að dauðinn einn lini þjáningarnar.

Helstu líkamlegu einkenni þunglyndis eru:
Höfuðverkir, magaverkir, verkir almennt, tregar hægðir og svitaköst
eru meðal algengustu líkamseinkenna. Verkirnir batna almennt lítið eða ekkert þó tekin séu verkjastillandi lyf.

Orsakir þunglyndis

Í fyrsta lagi má rekja þunglyndi til ytri orsaka.
Í öðru lagi má rekja orsakir þunglyndis til líkamlegra sjúkdóma t.d. skjaldkirtilssjúkdóma og vírusasjúkdóma. Einnig getur þunglyndi komið fram við fæðingar. Ein af hverjum tíu konum fá þunglyndi eftir fæðingu.
Í þriðja lagi má rekja orsakir þunglyndis til notkunar lyfja t.d. lyfja við háþrýstingi, hormónalyfja o.s.frv.
Í fjórða lagi má rekja orsakir þunglyndis til viðkvæms persónuleika.
Í fimmta lagi finnast engar ytri orsakir. Þunglyndið er innlægt. Svo virðist sem það gæti byrjað jafnvel á hamingjustund í lífi einstaklings.
Þegar um er að ræða innlægt þunglyndi þá er talið að veilan liggi í erfðaþáttum einstaklingsins. Reyndar hafa rannsóknir sýnt að ef einkenni innlægs þunglyndis koma fram í öðrum einstaklingi eineggja tvíbura þá eru allt að 70% líkur til þess að hinn tvíburinn fái svipuð einkenni, jafnvel þótt þeir séu aldir upp á ólíkum heimilum. Hins vegar er um óverulega aukningu að ræða hjá börnum foreldris, er hefur fengið innlægt þunglyndi og aðeins algengar hjá börnum foreldra er báðir hafa fengið þunglyndi. Stundum virðist svo sem þunglyndi komi fram í ættlið fram af ættlið og stundum án þess að vitað sé til um að sjúkdómurinn finnist í ætt.
Fyrir u.þ.b. 35 árum var farið að veita því eftirtekt að sum lyf gátu haft áhrif á geðrænt ástand. Frekari rannsóknir leiddu til þeirrar vitneskju að með þunglyndi fylgir röskun á starfsemi heila. Starfsemi boðbera, en það eru efni er flytja boð á milli fruma, er skert. Tveir flokkar boðbera er mest tengjast þunglyndi eru
serotonin og norepinephrine. Álitið er að skortur á serotonini geti orsakað m.a. svefntruflanir, pirring og kvíða. Skortur á norepinephrine getur leitt til slappleika, aðgerðarleysis og vonleysis.  

Sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir

Stundum fá einstaklingar, er líða af þunglyndi, þá tilfinningu að dauðinn einn geti leyst þá undan þjáningum. Nauðsynlegt er að taka alvarlega slíkri tilfinningu og hafa samráð við lækni um viðbrögð. Strax og þunglyndi léttir hverfur þessi tilfinning.
Sjálfsvíg eru alvarlegustu afleiðingar þunglyndis. Um helmingur allra þeirra einstaklinga er fremja sjálfsvíg, líða af þunglyndi. Talið er að um 10% þeirra er þjást af einkennum þunglyndis fremji sjálfsvíg.


Hvenær á að leita læknis?

Við leiða er ekki nauðsynlegt að leita til læknis en læknisfræðileg meðferð er nauðsynleg þegar um þunglyndi er að ræða. Þunglyndi er sárt e.t.v. versti sársauki sem manninn getur hrjáð. Oft eru einkennin væg í fyrstu og því vill verða bið á því að leitað sé til læknis. Árangur af meðferð fæst yfirleitt ekki fyrr en eftir 10-20 daga. Því er nauðsynlegt að hefja meðferð sem fyrst.

 

Leiðbeiningar fyrir aðstandendur eða vini

Nauðsynlegt er að einstaklingur með þunglyndi fari í viðeigandi meðferð og fylgi ráðum læknis. Lyf sem ekki eru tekin verka ekki.
Þar sem þunglyndi getur leitt til verulegra hugarfarsbreytinga bregðast einstaklingar stundum við á annan hátt en til er ætlast. Jafnvel vinahót og hvatning t.d. "vertu nú duglegur þá líður þér betur" getur verkað neikvætt. Þunglyndi er sjúkdómur sem menn hrista ekki af sér.

Mælt er með eftirfarandi:

  •  
    • Haldið eins eðlilegum samskiptum og mögulegt er.
    • Oft fer sjúklingur ekki að ráðum læknis.
    • Nauðsynlegt er að hvetja hann til að fylgja meðferð eftir.
    • Látið lækni strax vita ef sjúklingur fer að tala um lífsleiða eða sjálfsvíg. Það er alrangt sem stundum er haldið fram, að sjúklingar er tala um sjálfsvíg, fremji þau ekki.
    • Hvetjið sjúkling til göngu eða hreyfingar.
    • Bendið á neikvæða þætti í hugsun einstaklings, án þess að vera gagnrýnin.
    • Látið einstaklinginn vita að hann þjáist af þunglyndi og að einkennin stafi af því. Brosið og verið hvetjandi. Talið vingjarnlega við sjúkling og hrósið honum þegar tilefni gefst til.
    • Sýnið honum að ykkur er ekki sama um hann og látið hann njóta hlýju og virðingar.
Rétt er að forðast eftirfarandi:
  •  
    • Ásakið ekki sjúkling vegna einkenna hans.
    • Bíðið með viðkvæm mál þangað til að sjúklingur hefur náð sér.
    • Forðist umræður er geta dregið úr sjálfsmati sjúklingsins.

Yfirleitt fer vel á því að sjúklingar hafi eitthvað að gera. Aðgerðarleysi getur leitt til meiri hugarvíls og leiða. Stundum þarf að sýna ákveðni þar eð þeir eru oft neikvæðir, hafna jafnvel aðstoð, eru vanþakklátir og sýna óþolinmæði. Þunglyndi leiðir oft til þess að einstaklingar verða ekki ráðþægir, hafna jafnvel aðstoð, sýna vanþakklæti og óþolinmæði. Stundum þurfa því aðstandendur jafnvel ekki síður aðstoð og leiðbeiningar en sjúklingarnir.

Leiðbeiningar fyrir sjúkling með þunglyndi

Ef þú finnur til einkenna þunglyndis þá skaltu strax leita til læknis og styðjast við eftirfarandi leiðbeiningar:

  •  
    • Skammtaðu þér störf eftir getu og reyndu að sinna því hverju sinni er mest liggur á.
    • Taktu þátt í einhverri virkni t.d. göngu eða hreyfingu.
    • Gerðu ekki of miklar kröfur til þín.
    • Reyndu að umgangast fólk. Einvera er óæskileg.
    • Taktu engar áhrifaríkar ákvarðanir svo sem að skilja, skipta um starf, selja hús eða fyrirtæki.
    • Gerðu ekki kröfur til þess að þú getir ráðið við eða hrist af þér þunglyndi. Þunglyndið er eins og hver annar sjúkdómur.
    • Taktu vel við hjálpandi hendi. Flestir þeirra sem ekki hafa fengið sjúkdóm þinn, skilja hann ekki til fulls, en þeir vilja þér vel.
    • Vertu þolinmóður. Batinn kemur
 

 http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/pages/fraedsla_thunglindi.html

 Þarna fann ég þetta og það er alveg þess virði fyrir alla að lesa allt efnið.

Ég vona að Landspítalinn fari ekki í mál við mig, þó ég noti efni frá þeim til að hjálpa bæði mér og öðrum Shocking


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessar frábæru lesningu.Kveðja Ásdís

Ásdís Ólafs (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 21:29

2 Smámynd: Gestur Kristmundsson

Ekkert að þakka Ásdís. Mér fanst þetta bara það gott efni að ég varð að "stela" því af Lansanum.

Gestur Kristmundsson, 5.2.2009 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband